© Eygló Björnsdóttir

Valþjófsstaðarkirkja

Innri útihurðin á kirkjunni á Valþjófsstað er eftirlíking af hinni frægu Valþjófsstaðarhurð sem geymd er á Þjóðminjasafni Íslands. Talið er að hurðin hafi verið skorin út skömmu eftir aldamótin 1200. Árið 1851, var hún seld til Kaupmannahafnar í skiptum fyrir nýja hurð og tvo kertastjaka. Danir afhentu Íslendingum síðan hurðina aftur á alþingishátíðinni árið 1930. Sumir telja að hurðin hafi reyndar ekki alltaf verið í dyrum kirkjunnar, heldur hafi hún verið í miklum skála sem stóð lengi á Valþjófsstað.

Hurðin er talin einn af merkustu dýrgripum sem varðveist hafa á Íslandi. Bæði er það vegna aldurs, og svo hefur útskurðurinn á henni vakið mikla athygli bæði hérlendis og erlendis því hann þykir mjög vel unninn. Útskurðurinn myndar tvær kringlur. Í efri kringlunni er franska ævintýrið um riddarann og ljónið rakið, en það er upprunnið úr riddarasögum miðalda. Sagan táknar baráttu góðs og ills, þar sem hið góða sigrar. Í neðri kringlunni má sjá sköpunarsöguna í táknrænni mynd af ormum, sem fléttast saman. Sumir telja að kringlurnar á kirkjunni hafi í upphafi verið þrjár, en sú þriðja horfið þegar hurðin var stytt þegar byggð var ný kirkja á Valþjófsstað á fyrri hluta 18. aldar.

 © Þjóðminjasafn Íslands

© 2003 Eygló Björnsdóttir

Loka glugga