© Eygló Björnsdóttir

Landnám í Eyjafirði

Um 900 árum eftir Kristsburð tóku norrænir víkingar að leggja leið sína til Íslands, eða svo segir í Landnámabók þar sem greint er frá landnámi Íslands. Einn þeirra var Helgi magri. Hann var fæddur á Írlandi, sonur írskrar konungsdóttur en faðir hans var af norrænum ættum. Þegar Helgi var barn komu foreldrar hans honum í fóstur á Suðureyjum en er þau komu að sækja hann hafði hann verið sveltur svo mjög að þau þekktu hann ekki. Fékk hann þá viðurnefnið magri.

Trúmál Helga voru nokkuð sérstæð. Hann trúði á Krist en til sjóferða og þegar mikið lá við hét hann á Ása-Þór og það var hann sem vísaði Helga magra til Íslands.

Kona Helga magra hét Þórunn hyrna. Sagan segir að þau hafi siglt norður fyrir Ísland árið 890, inn á Eyjafjörð og tekið land á Árskógsströnd vestan fjarðarins. Þar höfðu þau vetursetu en fluttu árið eftir inn að Bíldsá hinu megin við fjörðinn.
Þau ákváðu síðan að setjast að til frambúðar enn innar í firðinum, á Kristnesi. Á leiðinni þangað, á hólma í Eyjafjarðará, fæddi Þórunn hyrna barn. Þar var kominn fyrsti Eyfirðingurinn, Þorbjörg hólmasól.

Heimild:

www.eyjafjordur.is

© 2003 Eygló Björnsdóttir

Loka glugga